Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Limra um leyfileg Mannanafnanefndarnöfn

Hún heitir Venus Þrá Hanna,
og hana ætti barasta að banna,
hún er of sexí,
ég henni vil rex'í,
og öll hennar innstu lög kanna.

Það er nú auðvelt að breyta lögunum um mannanöfn frá árinu 1996 þannig að þar komi einungis fram að eiginnafn megi "ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama", eins og fram kemur í 5. grein laganna, og leggja niður þessa nefnd, sem er sjálfsagt einsdæmi í heiminum. Alla vega væri gaman að fá upplýsingar um annað.

Dæmi um úrskurði Mannanafnanefndar frá febrúar í fyrra:

"Beiðni um eiginnafnið Hvannar (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá."

"Beiðni um eiginnafnið Hedí (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsmynd þess, Hedíar."

"Eiginnafnið Anya (kvk.) brýtur í bág við íslenskt málkerfi og getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Kvenmannsnafnið Anja er algengt í slavneskum málum, t.d. rússnesku, og mun hafa borist þaðan í önnur mál. Við umritun rússneskra nafna í latínustafróf er stuðst við reglur sem taka mið af framburði í hverju máli fyrir sig.

Í enskri umritun rússneskra nafna er j-hljóðið umritað með 'y' en í öðrum málum, líkt og íslensku, er yfirleitt ritað 'j'. Með hliðsjón af uppruna nafnsins væri því eðlilegt að rita 'Anja' á íslensku. Samkvæmt upplýsing-um frá Þjóðskrá eru tvær stúlkur skráðar með eiginnafnið Anya (fyrra nafn) og eru þær fæddar árin 2002 og 2006.

Báðar hafa öðlast íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur. Eiginnafnið Anya uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það."

Eftirfarandi nöfn eru hins vegar leyfileg hér, samkvæmt nefndinni:

Saxi Melrakki Snæringsson, Jeremías Engill Myrkvason, Aríel Þiðrandi Stormsson, Ljúfur Knörr Gjúkason og Þyrnir Fenrisson.

Olíumengun við Vestfirði getur lagt allt í rúst á einni nóttu

Það sem mælir helst gegn olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er hætta á olíumengun við Vestfirði, en fyrir utan þá eru uppeldisstöðvar helstu nytjastofna á Íslandsmiðum. Hrygningarstöðvar þorsks eru aðallega við Suðurlandið og Suðvesturlandið, og þaðan berast afkvæmin með hafstraumum á Vestfjarðamið. Hafstraumarnir fara einnig norður fyrir landið, og þar með olía af Vestfjarðamiðum, ef ekki væri hægt að koma í veg fyrir að hún færi í sjóinn, til dæmis af tankskipum.

Hvort olíuhreinsunarstöð verður reist á Vestfjörðum, eða ekki, kemur því ekki einungis Vestfirðingum við, heldur landsmönnum öllum, því olíumengun við Vestfirði getur lagt stærstu nytjastofna okkar í rúst á einni nóttu. Og hingað til höfum við lifað af sjávarútvegi, bæði á Vestfjörðum og annars staðar á landinu.

Og þar sem ég sérhæfði mig í sjávarútvegsmálum á Morgunblaðinu, veiðum, vinnslu og markaðsmálum, og skrifaði um þau í mörg ár, ætti ég nú að vita eitthvað um þessi mál. Þar að auki hef ég unnið í rækjuverksmiðju í Hnífsdal, verið háseti á akureyrskum togara á Halamiðum, unnið í frystihúsi í Grindavík og hér í Reykjavík, saltfiskvinnslu á Akureyri, og róið á neta- og línubátum frá Grindavík.

Það skiptir minnstu máli hvað fyrirtækið heitir sem kæmi slíkri olíustöð á koppinn hér. Rússnesk fyrirtæki eru nú ekki meiri glæpafyrirtæki en til dæmis bandarísk og íslensk fyrirtæki, svona almennt séð að minnsta kosti. Er ekki verið að dæma íslensk olíufyrirtæki fyrir verðsamráð þessa dagana og sagði ekki fyrrverandi borgarstjóri hér af sér vegna þess máls? Og voru ekki einhverjir fundir í Öskjuhlíðinni vegna grænmetis? En minni mitt er lélegt.

Til varnar Óla frænda

Ólafur frændi minn Egilsson er nýkominn á eftirlaun í utanríkisþjónustunni, 72ja ára gamall í ár, og vill bara halda áfram að vinna. Hann hefur nú aldrei verið glæpon og vantar ekki aurinn. Telur olíustöð á Vestfjörðum vera Vestfirðingum fyrir bestu og það verður bara að leggja kalt mat á þá hugmynd, hvort hún er góð eða slæm fyrir landið allt, ekki bara Vestfirði.

Margir sjá einungis nytsemisfegurð náttúrunnar og þannig hefur Gunnar á Hlíðarenda trúlega verið að vísa til hennar og lagt græn tún á vogarskálarnar, en ekki urð og grjót, upp í mót, þegar hann sagði si svona: "Helvíti er Hlíðin smart. Ég fer ekki rassgat!" Ætli það hafi ekki verið Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur, og aðrir rómantíkerar, sem fundu upp rómantíska fegurð íslenska grjótsins.

Rómantísk fegurð Vestfjarða væri ekki til ef enginn maður hefði séð þá og fegurð af öllu tagi er einungis til í kollinum á okkur sjálfum. Þannig er fegurð Vestfjarða út um allan heim og ferðast með viðkomandi manni. Einhver Jónína Jónsdóttir gæti til að mynda haldið því fram að Akureyri sé fallegri en Hnífsdalur, en enda þótt ég hafi búið á þessum stöðum, er mér þessi skoðun hennar einskis virði. Jónína þessi hefur engan sérstakan rétt til að búa á einhverjum stað, bara af því að henni finnst staðurinn fallegur frá rómantískum sjónarhóli séð.

Og ég efast um að Gunnar á Hlíðarenda hafi séð annað en nytsemisfegurð í Hallgerði sinni langbrók. Hún og Bergþóra, kona Njáls á Bergþórshvoli, voru stórglæpamenn á nútíma mælikvarða, drápu menn fyrir hvor annarri, en samkvæmt Njálu var Bergþóra "drengur góður". Og hversu oft hefur ekki sést par hér á götum höfuðborgarinnar, sem ætla má að bestu manna yfirsýn að sé svona dæmigert nytsemispar, karlinn lítill og ljótur en konan ægifögur, samkvæmt vestfirskri mælistiku.

Og eins og Gunnar á Hlíðarenda sá nytsemisfegurðina í grænum túnum Hlíðarinnar sér Óli frændi sömu fegurð í ljósum olíustöðvar á Vestfjörðum. Aftur á móti kvæntist Óli mikilli fegurðardís, Rögnu Sverrisdóttur frá Akureyri, af Reykjahlíðarættinni, þannig að hann sér nú ekki bara nytsemisfegurðina í fólki og fyrirtækjum. Og enda þótt Óli frændi sé lögfræðingur, eins og flestir Brímarar, eru til þeir lögfræðingar sem greitt hafa lokka við Galtará.

Ég skal greiða
þér lokka
við Galtará,
gefa þér
anímónur,
allt sólskinið
í Súdan,
tunglskinið
á Ægissíðu
og hjarta mitt
á silfurfati,
ef þú fellur fram
og tilbiður mig.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband