Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Boðið upp á föðurbetrunginn í Sjónvarpinu í tilefni dagsins

Ríkissjónvarpið býður upp á föðurbetrunginn í kvöld í tilefni dagsins. Hann erfði alla sparsemi Briemsættarinnar eins og hún leggur sig. Borgar skólagjöldin í Kvikmyndaskólanum úr eigin vasa, enda hefur hann unnið baki brotnu frá því hann var átta ára gamall við að talsetja og gagnrýna kvikmyndir, bæði fyrir börn og fullorðna, leika í Þjóðleikhúsinu og í kvikmyndinni Góðir gestir, sem sýnd verður í Sjónvarpinu í kvöld.

Og fjögurra ára vissi hann hvað hann ætlaði að verða. "Ég ætla að verða leikari."

"Ókei," sagði ég þá si sona. "Þá veit maður það."

Ég skammaði hann einu sinni, og ég man ekki lengur fyrir hvað það var, en ég skammast mín mikið fyrir það. Maður á ekki að skamma börnin sín. Það á að vera öfugt, því þau eru alltaf betri en maður sjálfur.

www.myspace.com/spellthesound


Amma og afi

Þeir sem lenda á Austurlandi eru Austlendingar. Amma var Austlendingur. Bjó austur á Héraði. Þangað hafði enginn lengi komið, nema fuglinn fljúgandi, þangað til þeir fóru að byggja álver, og þegar það var komið á risastóran kopp voru allir aftur hamingjusamir fyrir austan. En amma missti af því. Þess vegna var hún aldrei hamingjusöm.

Síðasta árið sem hún libbði, eins og Svarfdælingar segja, var hún með krabbamein. Ég flutti því til hennar, því hún bjó ein. Afi löngu farinn yfir móðuna miklu á gömlum árabát frá Vopnafirði, þar sem þau hjónakornin bjuggu um tíma. En enda þótt amma væri rúmliggjandi voru stelpurnar svo hræddar við hana að þær komu allar inn um svefnherbergisgluggann hjá mér, og fóru sömu leið út.

Afi var með afbrigðum sparsamur og þegar amma skrúfaði frá hitanum á ofnunum heima hjá þeim á Bergþórugötunni, skrúfaði afi jafnóðum fyrir hitann. "Þetta er eins og í Helvíti!" sagði afi eitt sinn þegar amma hafði skrúfað frá hitanum. "Hefur þú nú verið þar?!" sagði amma þá.

Þau voru bæði kennarar og amma kenndi í Austurbæjarskólanum. Afi var hins vegar á eilífu flandri um landið og sagði sögur. Og eitt sinn fór hann alla leið til Ameríku. Ég fann nýlega bréf frá honum til ömmu, þar sem hann er að lýsa einhverjum skýjakljúfum á Manhattan.

En hann kom til baka og var skapstór maður. Hafði gaman af að tefla og allir sem hafa gaman af að tefla eru nú ekki alveg í lagi, eins og dæmin sanna. Nægir þar að nefna Friðrik Ólafsson. Eitt sinn var afi að tefla við Óla föðurbróður og tapar fyrir honum. Afi brást hinn versti við, tekur taflborðið og skellir því ofan í kollinn á Óla, þannig að það var eins og prestakragi utan um hálsinn á honum.

Pabbi var því alinn upp hjá afabróður mínum, Framsóknarprestinum og ráðherranum uppi á Skaga. Og eitthvað held ég að þetta "uppeldi" hafi lagst illa í þá bræður, pabba og Óla, því þeir kvæntust báðir útlendum konum, Óli rússneskri stelpu með tréfót og pabbi dóttur hollenska landstjórans á Súmötru. Dóttir þeirra, og hálfsystir mín, býr á Ísafirði og ég er nú dáldið hreykinn af því. Það eru nú ekki margir sem eiga hálfsystur á Ísafirði.

En þegar Óli sagði ömmu frá hinni rússnesku Kötu sinni með tréfótinn, sagði amma: "Þarftu nú að flytja inn timbur frá Rússlandi?!"

Amma var óhamingusöm, hún var frá Austurlandi, og flutti þaðan áður en álverið kom með alla sína innfluttu hamingju. Og allar kærusturnar mínar voru skíthræddar við hana. En ég veit ekki af hverju. Sumt bara skilur maður ekki.

Soundspell er best, segja Tom Waits, Jerry Lee Lewis, Frank Black og Robert Smith

Íslenska hljómsveitin Soundspell vann nýlega fyrstu verðlaun í flokki unglinga í einni stærstu lagasmíðakeppni heims, International Songwriting Competition (ISC) í Bandaríkjunum, og meðal dómara voru Tom Waits, Jerry Lee Lewis, Frank Black (The Pixies) og Robert Smith (The Cure).

245.is:

"Stór hluti unglinganna, sem voru í úrslitum, eru undrabörn sem eru í fullu starfi sem tónlistarmenn. Sum þeirra hættu í skóla 11 ára og í kringum mörg þeirra eru rekin milljóna fyrirtæki.

Sá sem er trúlega allra frægastur er Matt Savage með lagið sitt Colors. Svo er það raffiðluséníið, Antonio Pontarelli. Hann var einu sinni kosinn America’s Most Talented Kid og hefur spilað með Jethro Tull, San Diego sinfóniunni og Ray Charles. Og saxófónleikarinn Grace Kelly var að spila á rauða dreglinum á Grammy hátíðinni síðast þegar til hennar fréttist.

Strákarnir í Soundspell hafa æft á elliheimili, í líkamsræktarstöð og bílskúr. Þeir eru allir í námi [nú 17, 18 og 19 ára]. Alexander Briem söngvari, er á leiklistarbraut í Kvikmyndaskóla Íslands, Áskell [Harðarson Áskelssonar organista] bassaleikari, stundar nám í MH og FíH, Siggi [Sigurður Ásgeir Árnason] píanóleikari, er í Kvennaskólanum í Reykjavík, Jón Gunnar [Ólafsson] gítarleikari, er í Verslunarskóla Íslands og Benni [Bernharð Þórsson Pálssonar, bróður Lísu Páls sem var söngkona Kamarorghestanna] trommuleikari, er í Fjöltækniskólanum.


Verðlaunin eru meðal annars fimm vikna skólavist í sumar í Berklee tónlistarskólanum í Boston. (Tilviljun? Ég held ekki.)

http://www.245.is/displayer.asp?page=44&Article_ID=2099&NWS=NWS&ap=NewsDetail.asp&p=ASP\~Pg44.asp

Hér er hægt að lesa meira um keppnina, dómnefndina og verðlaunahafana í hinum ýmsu flokkum í keppninni:
http://www.songwritingcompetition.com/winners.htm

Og slóðin á heimasíðu Soundspell er:
http://www.myspace.com/spellthesound

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband